Nefndaskipun ríkisstjórnarinnar undanfarið vekur nokkra athygli. Það virðist dálítið eins og Framsóknarmenn skipi sitt fólk í sínar nefndir og Sjálfstæðismenn sína menn í sínar nefndir.
Þannig er það með nefndina sem var tilkynnt um í dag og á að vera til ráðgjafar um efnahagsmál og opinber fjármál eins og segir.
Allir nefndarmenn eru gallharðir Sjálfstæðismenn – og þeir eiga það líka sammerkt að aðhyllast frjálshyggju.
Þarna er Ragnar Árnason, harðasti talsmaður kvótakerfisins og prófessor við Háskóla Íslands. Ragnar var reyndar eitt sinn í Alþýðubandalaginu, en söðlaði svo um og er mjög einkavæðingarsinnaður. Hann vill ganga svo langt að einkaeign sé á sjávarauðlindinni.
Þarna er Þráinn Eggertsson prófessor – hann var eitt sinn í hinum margumtalaða Eimreiðarhópi.
Og svo er þarna yngra fólk, Orri Hauksson og Guðrún Inga Ingólfsdóttir. Bæði hafa verið í Sjálfstæðisflokknum nánast frá barnsaldri, í frjálshyggjuarmi hans. Guðrún Inga var um tíma varaþingmaður fyrir flokkinn, en Orri var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar.