Ég þekki útlendinga sem komu fyrst til Reykjavíkur á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og sakna þess hvernig bærinn leit út þá. Þeim fannst þetta einstakur staður að koma á – og ekki voru ferðamennirnir að þvælast fyrir.
Þá var ekki farið að gera upp gömlu timburhúsin í bænum. Niðurníðslan var áberandi mikil – það var þunglyndisbragur yfir öllu. Hugsanlega var eitthvað ljóðrænt við þetta?
Þetta var tíminn þegar Grjótaþorpið var enn á mörkum þess að vera slömm og Þingholtin og Skuggahverfið virtust að niðurlotum komin.
Nú er búið að gera upp gömlu hverfin. Þangað hefur flutt menntað fólk með góð fjárráð – á ensku heitir það gentrification þegar hverfi breytast með þessum hætti.
Í anda þessa voru öll boðin og bönnin sem tíðkuðust. Opnunartími veitingahúsa var mjög takmarkaður, það var enginn bjór og engar krár, örfá kaffihús sem flest seldu molakaffi, sjoppur máttu um tíma ekki selja varning nema í gegnum lúgur.
Einhvern veginn lifði maður þetta samt af – en líklega hefur flest horft til framfara síðan þá. Lítið á þessar myndir sem birtast á vefnum Iceland Visual History Blog.
Þar er spurt: Was Iceland a shithole in the seventies?