Þessi færsla gengur manna á meðal á Facebook, hún er eftir Huga Ólafsson. Þarna eru dregnir saman nokkrir þræðir í skýra heildarmynd:
„Hrunið á bráðum 5 ára afmæli, en uppgjöri er ekki lokið og nýjar upplýsingar og greiningar koma enn fram. Þessi samanburður er með því hnýsilegra sem sést hefur. AGS segir að í engu landi hafi kostnaður við endurreisn banka verið meiri en á Íslandi eða opinberar skuldir aukist meir. Samt voru afskrifaðar kröfur á föllnu bankanna sem nam nokkrum þjóðarframleiðslum. Þessar tvær staðreyndir sýna eitt: Hvergi voru gefin út meiri og ábyrgðarlausari og eftirlitslausari loforð en af íslensku bönkunum. Bólan og hrunið hér var einsdæmi hvað hlutfallslega stærð varðar. Bókhaldstölur í bönkunum voru í alls engu sambandi við raunveruleg verðmæti og allt bendir til kerfisbundinna bókhaldsbrellna, sem hlutfallslega voru miklu ævintýralegri en t.d. undirmálslánasvikamyllan í BNA. Einhverjir myndu vilja nota sterkari orð en „brellur“, en fá lögbrot hafa sannast, sem segir okkur að lögin og kerfið hafi verið alveg vanbúin að takast á við þátttöku Íslands í hákarlasjó alþjóðlegra fjármálaviðskipta. Við vorum tekin í nefið af tuttugu-og-eitthvað bókhaldssnillingum, sem fengu að nota okkur sem veð. Við erum enn ofan í skúffu hjá veðlánaranum, undir skuldaoki og með gervigjaldmiðil. Vonandi verður 5 ára afmælið nýtt til að varpa ljósi á það sem gerðist í raun og til að draga lærdóma af því. Margt bendir í rétta átt, en ekki þó launaskrið í bönkum og endurreisn á hvatakerfum þar. Við þurfum banka sem þjónustustofnanir, ekki sem sníkjudýr á raunefnahagslífinu.“