Nýlega kom út skýrsla frá Ríkislögreglustjóra um alls kyns hættur sem geta steðjað að þjóðinni. Það er meðal annars fjallað um skipulagða glæpastarfsemi, mótorhjólagengi og hryðjuverkamenn.
Staðreyndin er samt sú að einna mest hætta stafar af aðilum sem koma lítið við sögu þarna – nefnilega fjármálastofnunum.
Fátt er hættulegra á Vesturlöndum en peningamenn og peningastofnanir sem hafa vaxið ríkisstjórnum yfir höfuð og geta valdið almenningi ógurlegum búsifjum með framferði sínu – líkt og við höfum skýr dæmi um.
Samt er það svo að menn æmta og skræmta ef á að koma lögum yfir fjármálamenn – og því miður reynast réttarkerfi afar vanbúin til þess. Það er miklu auðveldara að nappa einhvern sem stelur kjötbita eða kardimommudropum.
Og aftur er byrjaður söngurinn um að ekki megi hafa of mikið eftirlit, það sé of dýrt eða til trafala. En við sjáum hvað eftirlitsleysið eða vanhæfni eftirlitsins kostaði okkur síðast.