Íbúðalánasjóðshneykslið er mjög óþægileg fyrir ríkisstjórnina. Ekki einungis hafa þarna verið teknar vondar og vitlausar ákvarðanir, heldur er þarna flokkspólitísk spilling sem á rætur að rekja til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.
Og aftur erum við minnt á hversu stofnanir ríkisins voru spilltar og grútmáttlausar, Seðlabankinn svaf á verðinum og auðvitað Fjármálaeftirlitið – það var alltaf nánast meðvitundarlaust.
Svo koma þarna inn kunnugleg andlit úr vandræðamálum eins og Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri í Skagafirði.
En það verður sjálfsagt ekki Árna Páli Árnasyni til sérstaks framdráttar að hafa verið sérstakur trúnaðarlögfræðingur Íbúðalánasjóðs.
Það er gengið út frá því að ríkisábyrgð sé á Íbúðalánasjóði – og þá verðum við líklega að telja að skattgreiðendur séu ábyrgir fyrir öllu tapi hans, meiru en 200 milljörðum.
En er það endilega svo?
Verða ekki kröfuhafar í Íbúðalánasjóði, þeir sem keyptu skuldabréf hans, að taka á sig tap? Er hægt að leysa vandann öðruvísi? Það þýddi að lífeyrissjóðir myndu tapa miklu fé, en það fer líklega að verða óhjákvæmilegt.
Andri Geir Arinbjarnarson skrifaði forvitnilegt blogg um þetta í júní, áður en skýrslan um Íbúðalánasjóð kom út. Andri hefur reynst glöggur um margt, til að mynda bæði þennan vanda og vanda Orkuveitunnar.