Eitt einkenni þeirra tíma sem við lifum á er að fólk ferðast.
Það var ekki svona: Sjálfur kom ég til útlanda fyrst þegar ég var 13 ára. Núorðið myndi það þykja gamalt.
Þjóðir eins og Kínverjar og Rússar eru líka farnar að ferðast í stórum stíl: Fólk þaðan bætist í hinn mikla ferðamannastraum.
Á Íslandi stefnir fjöldi ferðamanna óðfluga í milljón manns á ári, brátt verður hann líklega þreföld íbúatala landsins.
Menn eru vanir að heyra eintómar vondar fréttir frá Grikklandi, en hér er búist við metári í ferðamennsku eins og á Íslandi.
Aukningin er um tuttugu prósent frá síðasta ári, það er búist við sautján milljón ferðamönnum. Það er meira en ein og hálf íbúatalan.
Auðvitað er þetta mestanpart gleðilegt – öll þessi ferðamennska er merki um að við lifum á tímum þegar ríkir frelsi. Fólk sem ferðast verður yfirleitt víðsýnna en það sem situr heima.
Heimskt er heimaalið barn.
En troðningurinn á ferðamannastöðum heimsins eykst stórlega. Það er borin von að menn geti notið staða eins og Santorini, Sixtínsku kapelunnar eða Gullfoss í hljóðri íhugun. Líklegra er að manni verði rutt um koll af kínverskum ferðamannahópi.
Ferðamenn troðast um götur hinnar ægifögru eyjar Santorini, þannig að nokkuð erfitt getur verið að njóta fegurðarinnar. Best er að vera þar síðla kvölds þegar hóparnir af skemmtiferðaskipunum eru farnir.