Danska sem tungumál verður óskiljanlegri og óskiljanlegri eftir því sem tíminn líður.
Þeir sem læra dönsku í íslenskum skólum eiga ekki séns í að skilja þá dönsku sem er töluð úti á götum í Kaupmannahöfn – og ekki heldur í vinsælum dönskum lögguþáttum.
Þetta er ekki danskan sem var töluð í þáttum eins og Matador, Húsinu á Kristjánshöfn eða í kvikmyndum með Dirch Passer og Gihte Nörby.
Þar gat mörlandinn skilið hvert orð, enda var talað skýrt og af ákveðinni festu.
Það sem hefur gerst síðan er að danskan hefur færst aftar og aftar í kokið og er eiginlega komin hálfa leið ofan í vélinda. Fyrir utan það hafa bæst við ýmis orð sem ekki er að finna í íslenska skólalærdómnum.
Því er ekki furða að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi verið feginn yfir þvi að Helle Thorning-Schmidt kollega hans talaði skiljanlega dönsku og alveg ástæðulaust fyrir íslenska vinstrimenn að gera grín að því.
En lille kop kaffe. Íslendingar áttu ekki í vandræðum með að skilja dönskuna í sjónvarpsþáttunum Matador, en nú eru aðrir tímar.