Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson, höfundur ágætrar bókar um íslenska efnahagshrunið, skrifar hugvekju í Fréttablaðið í dag í framhaldi af ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Austurvelli 17. júní:
Hér er niðurlag greinarinnar:
„En söguskoðun getur líka valdið skaða. Nú heyrist því stundum fleygt að efnahagsvanda Íslendinga megi að meira eða minna leyti rekja til útlendinga. Þannig beindi forsætisráðherra spjótum sínum að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Auðvitað var hann í fullum rétti til þess og ýmislegt má finna að framferði þeirra sem þar ráða ferðinni. En sögunni hefði alveg mátt fylgja að það voru íslensk stjórnvöld sem leituðu til þessara stofnana á sínum tíma. Það gerðist eftir stórkostlegt hrun á Íslandi. Bankar hrundu, gjaldmiðillinn líka og ríkið rambaði á barmi greiðsluþrots. Hrun var það og hrun skal það heita. Og orsakir ófaranna var einkum að finna hér á landi.
Þá má meðal annars nefna brenglaða söguskoðun og blint sjálfshól. Svokallað efnahagsundur á Íslandi var rakið til meintra yfirburða Íslendinga í alþjóðaviðskiptum sem áttu síðan að eiga rætur sínar í arfleifð frjálsra víkinga, landkönnuða og skálda. Fátt var fjær sanni og dramb er falli næst. Sagan sýnir það.“