Nú má vera að það sé eins og til dæmis Karl Th. Birgisson og Ólafur Þ. Stephensen halda fram að kröfurnar í undirskriftasöfnun gegn því að breyta veiðigjaldinu standist ekki alveg skoðun. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hefur líka talað um að undirskriftasöfnunin sé marklítil.
Svipuð gagnrýni var reyndar uppi á tíma Icesave.
Það breytti því þó ekki að bak við undirskriftirnar er ansi skýr vilji – rétt eins og á tíma Icesave.
Skoðanakannanir hafa margsinnis sýnt að hátt í þrír fjórðuhlutar þjóðarinnar eru andsnúnir kvótakerfinu í núverandi mynd.
Einnig má minna á niðurstöður úr kosningunni um tillögur stjórnlagaráðs, annars vegar að 63,4 prósent voru hlynnt því að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu ef tiltekið hlutfall kjósenda krefst þess og að 74 prósent vildu að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign.
Nú má vera að forsetinn og ríkisstjórnin vilji hunsa þetta, en það er þá ekki vegna þess að þetta sé ekki bona fide fjöldahreyfing – heldur vegna þess að þessir ráðamenn hafa aðra skoðun á málinu.