Það kveður nýrra við ef menn fara að komast að því að umhverfisráðuneyti sé óþarft – og gera það að deild í atvinnuvegaráðuneytunum, eins og Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður Framsóknarflokksins talar um.
Hann talar um að umhverfismálin megi ekki vera andstæða atvinnumálanna, en það er að vissu leyti hlutverk ráðuneytisins – að vera mótvægi við þá sem vilja af miklu ofurkappi byggja upp atvinnulíf sem gengur á náttúruna.
Umhverfisráðuneytið var stofnað í tíð síðustu ríkisstjórnarinnar sem framsóknarmaðurinn Steingrímur Hermannsson veitti forystu, síðan hefur maður varla heyrt talað um að það sé óþarft.
Það hefur líka verið alþjóðleg þróun að umhverfisráðuneytum vex fiskur um hrygg.
Til dæmis var það svo þegar hægrimaðurinn Nicolas Sarkozy varð forseti í Frakklandi að umhverfisráðuneytið var eflt og kallaðist þá ráðuneyti umhverfis, sjálfbærrar þróunar og orku – þá var litið svo á að umhverfisráðuneytið væri jafn mikilvægt og fjármála- og utanríkisráðuneytin.
Allavega hljómar það eins og skrítin latína að gera umhverfisráðuneyti að deild í ráðuneytum sem fjalla um afmarkaða atvinnuvegi eins og landbúnað og sjávarútveg. Manni finnst nánast að þetta ætti að vera öfugt.