Einn af merkilegustu stjórnmálamönnum síðustu áratuga er Helmut Kohl. Þegar hann tók við embætti kanslara í Þýskalandi bjuggust menn ekki við miklu af honum. En Kohl hafði sýn sem byggði á því að hann hafði upplifað hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar og að tveir bræður hans höfðu fallið í stríðinu.
Kohl var eindreginn evrópusinni og þegar kommúnisminn féll í handan járntjalds, hikaði hann ekki við að sameina þýsku ríkin þrátt fyrir hávær mótmæli – ekki síst af vinstri væng.
Í Þýskalandi er mikið rætt um óopinbera ævisögu Kohls sem er að koma út. Hún byggir á viðtölum blaðamanns við hann sem voru tekin í gegnum tíðina og hafa ekki verið birt. Þar fjallar Kohl um stjórnmálamenn sem hann kynntist. Honum liggur vel orð til Ronalds Reagan, sem hann segir að hafi verið vanmetinn í fyrstu, og til Johns Major, sem hann segir að hafi verið gott að tala við.
En um Margaret Thatcher segir Kohl að hún hafi sofið á fundum, beinlínis dottið á handtöskuna sína. Og hann segist eitt sinn hafa þurft að setja ofan í við hana. Það var þegar hún hélt þrumuræðu um nauðsyn þess að setja niður kjarnorkuflaugar í miðri Evrópu. Þá minnti Kohl hana á bræður sína tvo sem fórust í stríðinu.
Kohl segir að Filippus drottningarmaður í Bretlandi sé fábjáni – „Edinburgh ist ein dummkopf“. Og hann er fullur fyrirlitningar á því sjónarspili sem var brúðkaup Karls prins og Díönu á sínum tíma.
En, eins og ég segi, Kohl er merkur maður – menn héldu fyrst að hann væri meðalmenni, honum var ekki ásköpuð nein mikilmennska, en hann reis undir ábyrgð og gerði merka hluti.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég heyrði Geir H. Haarde tala um „ómerkilega stjórnmálamenn“. Það er nú svo. Segja verður eins og er að aldrei sást neitt svo merkilegt til Geirs að hann hafi efni á því að tala niður til annarra stjórnmálamanna með þessum hætti.
Nema síður sé.