Kiljan sem verður sýnd á Rúv í kvöld er afar fjölbreytt.
Við fjöllum um Grím Thomsen í tilefni af útkomu bókar um hann eftir Kristján Jóhann Jónsson. Grímur hefur á sér það orð að hafa verið heldur grályndur, en Kristján telur hann hafa verið meiri frjálsræðismann en sagan segir. Á unga aldri skrifaði Grímur til dæmis ritgerð um skáldið Byron.
Við förum í göngutúr á Skólavörðuholti með Úlfari Þormóðssyni. Úlfar er miðbæjarmaður – bókin Uggur eftir hann gerist mikið á göngu um Miðbæinn.
Sally Magnusdottir segir frá bókinni Handan minninganna, en þar lýsir hún móður sinni, Mamie Baird Magnusson, og hvernig hún varð elliglöpum að bráð.
Kristín Svava Tómasdóttir segir frá uppáhaldsbókum sínum, en í dagskrárliðnum Bækur og staðir er farið á Rauðasand.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Þegar dúfurnar hurfu eftir Sofi Oksanen og Náðarstund eftir Hannah Kent.
Í dagskrárliðnum Bækur og staðir fjöllum við um Rauðasand, þar gerist Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson.