Víða má lesa að verslun í Evrópu að færast frá stórum súpermörkuðum á útjöðrum og yfir í minni búðir í hverfum. Þetta er þróun sem hefur verið í gangi í nokkurn tíma og nú er mestur vöxtur í búðum sem líkjast til dæmis Melabúðinni – sem eru hæfilega stórar en hafa nokkuð fjölbreytt úrval.
Hlutdeild súpermarkaðanna er að minnka – fólk er ekki jafn gjarnt á að aka á bifreiðum út á jaðra borga og kaupa í matinn í miklu magni, fyrir heila viku eða meira. Fæstir skipuleggja líf sitt svo langt fram í tímann, auk þess að sparnaðurinn við slík magninnkaup er vafasamur. Þeim fylgir til dæmis að miklum mat er hent.
Eins og segir er þetta alþjóðleg þróun. Hennar sér ekki enn stað hér að marki, en þar verða ábyggilega breytingar á. Og þá erum við að tala um hverfisbúðir sem bjóða líka upp á ferskan fisk, kjöt, nýtt grænmeti og ávexti – semsagt þar sem er hægt að kaupa í matinn í alvörunni.