Ef fréttir eru réttar fórust 500 manns þegar skipi var sökkt í Miðjarðarhafi fyrr í þessum mánuði. Það var á leið frá Egyptalandi til Möltu.
Þetta hefur ekki verið mikið í fréttum, en svo virðist vera að glæpamenn sem stunda smygl á fólki hafi viljandi sökkt bátnum. Þetta er semsagt ekki bara sjóslys, heldur fjöldamorð.
En talan er hrollvekjandi, þarna deyja í einu 500 flóttamenn – það er þriðjungur fjöldans sem fórst með Titanic. Um það slys erum við enn að tala, 100 árum síðar.
Alþjóða flóttamannastofnunin áætlar að allt að 2900 manns hafi látið lífið í Miðjarðarhafi á þessu ári, í örvæntingarfullum tilraunum til að komast frá Afríku til Evrópu.