Björn Bjarnason skrifar grein á Evrópuvaktina þar um kosningarnar í Svíþjóð. Hann vitnar í dönsku stjórnmálakonuna Piu Kjærsgaard – sem kvartar undan því að stjórnmálaflokkar í Svíþjóð ætli að hafa úrslit kosninganna að engu með því að útiloka Svíþjóðardemókrata frá stjórnarþátttöku. Þar sé verið að halda næstum „áttunda hverjum kosningabærum Svía utan dyra“.
Björn Bjarnason sleit sínum pólitísku bernskuskóm í Kalda stríðinu. Má segja að þar hafi hann verið í liði haukanna.
Eitt þótti alveg fráleitt í liði hans – og það var að hleypa kommúnistum að völdum. Samt náðu þeir oft feiki góðum árangri í kosningum í Evrópu. Í Frakklandi náði flokkurinn fjórðungs fylgi, á Ítalíu þriðjungsfylgi. Á Norðurlöndunum voru kommúnistaflokkar yfirleitt ekki í ríkisstjórnum nema í stuttan tíma eftir seinni heimstyrjöldina, áður en Kalda stríðið hófst.
Nú heyrir kommúnisminn mestanpart sögunni til í Vestur-Evrópu. Drjúgur hluti fylgis þeirra byggðist á megnri óánægju með ríkjandi þjóðfélagsskipan. Og fylgið sem flokkar eins og Svíþjóðardemókratar fá er líka tilkomið vegna óánægju.
Hér er myndband þar sem Jimmie Akesson, formaður Svíþjóðardemókratarna, syngur lag um morðið á Olof Palme.