fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Eyjan

Meiri framsýni og fjárfestingu – minni græðgi

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. ágúst 2014 09:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þessari frétt á Vísi kemur fram að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafi ekki eytt of miklu þrátt fyrir fréttir þar um. En ef upphæðirnar í fréttinni eru skoðaðar kemur í ljós að það eru smápeningar sem þessi sjóður hefur til umráða miðað við umfang ferðamennskunnar á Íslandi.

Túrisminn er almennt ekkert sérstakt vandamál þrátt fyrir fjarskalega neikvæða umræðu sem virðist koma innan úr dekkri hluta þjóðarsálarinnar, þörfinni til að finnast allt ómögulegt.

Dr. Gunni orðar þetta vel í pistli hér á Eyjunni. Túristarnir eru eitt meðalið gegn fámenninu sem stundum gerir lífið hér heldur litlaust:

Margir væla nú undan túristaflóði. Hreinræktaðir Íslendingar þurfa jafnvel að standa í röðum á eftir skítugum túristum. Þetta vomir á öllum gatnamótum húkkandi far og eyðir ekki krónu í annað en fáránlega ferð í Bláa lónið, aka Drullupytt Satans.

Við þessa vælverja segi ég: Farið til Þorklákshafnar ef þið viljið endilega vera þar sem ekki sést sála á götunum. Ég man alveg þegar Reykjavík var eins og Þorlákshöfn. Maður fór kannski á einhverja drepleiðinlega mynd í MÍR klukkan 14 á sunnudegi, kom svo út og gekk um göturnar þar sem ekki hræða var á ferð; í mesta lagi nokkrir að rúnta niður Laugarveginn inn í bílum. Það var fjúk og doði. Það er engin eftirsjá í Íslandi fyrir túristaflóð. Alls engin. En það má náttúrlega reyna að koma böndum á átroðning í viðkvæmri náttúru og ótrúlegt að það sé ekki búið að koma einhverju skikki á það allt saman.

Ég fagna túristagerinu. Þar sem er fólk þar er líf. Maður er manns gaman. Og svo er þetta flest stórskrýtið fólk því það þarf að vera smá klikk til að nenna að koma hingað. Skrýtið er gott.

Vandamálið er hins vegar mikill átroðningur á fáum stöðum, eins og til dæmis við Gullfoss. Ég talaði í gær við leiðsögumann sem fer þangað reglulega. Hann sagði að ástandið þar væri „rugl“. Trépallar eru að kikna undan ágangi, allt er troðið niður, það sárvantar klósett.

Þetta eru vandamál sem má laga auðveldlega, ef við værum ekki svona nísk og ætluðum ekki að græða heil ósköp án þess að leggja neitt á móti. Það þarf einfaldlega að leggja miklu meira fé í uppbyggingu í kringum helstu ferðamannastaðina og það þarf líka að dreifa ferðamannastraumnum betur, fara á staði sem eru síst síðri en til dæmis Gullfoss, en miklu fáfarnari.

Eitt hið óskiljanlegasta í þessu sambandi er þegar ekki mátti leggja aukna skatta á ferðaþjónustuna. Alls staðar þar sem maður fer sjálfur sem ferðamaður borgar maður skatt og skilur það mæta vel. Ferðamennska er lúxus. Nú þegar þetta er að verða langstærsta atvinnugrein landsins verður að búa henni almennilegt umhverfi sem einkennist af festu og skynsemi, en ekki upphlaupum, skammsýni og gróðafíkn.

63742f8668-380x230_o

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt