Hér á þessari síðu er að finna ótúlegar myndir eftir ljósmyndarann Vincze Miklós.
Kannski er hægt að tala um hryllilega fegurð – eða fegurð með hryllingsívafi. Þetta er mjög annarlegt.
Myndirnar eru frá borginni Norilsk, nyst í Síberíu. Þessi borg byggðist upp í kringum fangabúðir þar sem var stundaður námugröftur við skelfilegar aðstæður.
Norilsk er einhver mengaðasti staður í heimi, enda ber greinin yfirskriftina Mengað helvíti á jörð. Þarna eru nikkelnámur, einhverjar þær stærstu í heimi, en í Norilsk er sífreri – það þýðir að frost fer aldrei úr jörð. Í Norilsk búa næstum 140 þúsund manns. Lífslíkur eru mjög lélegar, eða innan við fimmtíu ár. Það er meira en tíu árum minna en lífslíkur karla í Rússlandi – sem eru mjög lélegar.
Allt í kringum borgina er dautt svæði þar sem gróður þrífst illa. Það snjóar mikið í Norilsk en snjórinn fær á sig gulan lit vegna eiturefna. En kaupið í Norilsk er gott, betra en annars staðar, og þess vegna þarf ekki lengur að smala þrælum til að vinna þar eins og var gert á tíma Gúlagsins.