David Uberti skrifar í Guardian um dauða amerísku verslunarmiðstöðvanna, það sem heita malls á ensku.
Þessar verslunarmiðstöðvar sem eru út um allt í Bandaríkjunum eru tákn úthverfalífsins. Þangað er ekki hægt að komast nema á bílum. Þær eru mjög innhverfar, ljótar að utan, með stórum bílastæðum, en inni býr heimur ofgnóttar.
Hann nær hámarki hvert ár á hinum svokallaða svarta föstudegi þegar verðið hrapar og fólk þyrpist í milljónatali í verslunarkringlurnar.
En nú eru verslunarmiðstöðvar að fara á hausinn út um öll Bandaríkin. Það þykir ekki jafn eftirsóknarvert og áður að hafa verslunarpláss í þeim.
Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Fólk er aftur farið að leita inn í borgirnar – þar er að verða uppgangur. Ungu fólki þykir eftirsóknarvert að búa nærri miðborgum. Það þykir ekki spennandi að keyra langar leiðir á hverjum degi og það er heldur ekki umhverfisvænt.
Önnur skýring er að kaupmáttur hefur einfaldlega minnkað. Fólk er ekki jafn stórtækir neytendur og á blómatíma úthverfamenningarinnar.
Og svo er það aukin verslun á netinu – hún er ekki síst hjá þeim sem annars sækja verslunarmiðstöðvar.
Hér má svo finna mjög skrítna vefsíðu sem ber nafnið Dead Malls.