Það verður skelfilegt áfall fyrir Bandaríkin ef þau þurfa að senda herlið til að verja Bagdad – 11 árum eftir að Georg W. Bush hélt mission accomplished ræðu sína og lýsti yfir sigri í Íraksstríðinu.
Alltaf er að koma betur og betur í ljós hvílíkt glapræði þessi hernaður var, hrokinn og heimskan sem bjuggu að baki eru himinhrópandi.
Þetta er stríð sem ætti heima í March of Folly, bók sagnfræðingsins Barbara Tuchman þar sem hún fjallar um vitlausustu stríð sögunnar.
Íraksstríðið rændi Bandaríkin áhrifavaldinu sem þau hafa á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir að hálfur áratugur sé síðan Bush og lið hans – með Cheney og Rumsfeldt í fararbroddi – er langt frá því að skaðinn hafi verið bættur.
Þetta er afar slæmt, því heimurinn þarfnast þess að Bandaríkin séu sterk. Eftir atburðina í Úkraínu eru Evrópa og Bandaríkin að ná miklu betur saman en áður. Obama er forseti sem Evrópa getur talað við – Bush og hans lið fyrirleit Evrópu, sérstaklega eftir að Þýskaland og Frakkland vildu ekki taka þátt í herförinni í Írak.
Nú sést glöggt að þar hafði gamla Evrópa á réttu að standa. Bandaríkjamenn hefðu betur étið frönsku kartöflurnar – frelsiskartöflurnar voru eitraðar.
Bush-klíkan hleypti öllu í bál og brand í Miðausturlöndum. Nú berjast sunnítar og shítar í Írak – en Íransstjórn hefur miklar áhyggjur af trúbræðrum sínum í röðum shíta. Við hliðina á er svo Sýrland með sitt skelfilega borgarastríð. Það bætir svo ekki úr skák að Rússar munu fyllast Þórðargleði yfir hverju áfalli sem Bandaríkin verða fyrir, þeim finnst alveg prýðilegt að Bandaríkin þurfi aftur að beina allri sinni athygli að Írak.