Hér er skemmtilegasta frétt sem maður hefur séð í langan tíma, birtist í Daily Telegraph.
Í gær skrifaði ég grein um hina hetjulegu kynslóð sem barðist fyrir frelsi á ströndum Normandí fyrir 70 árum. Brátt sjáum við á bak hinum síðustu sem eru af þessari kynslóð.
En þetta er einn af hermönnunum, hinn 89 ára gamli Bernard Jordan.
Nú er hann öldungur á elliheimili í Hove í Sussex.
Hann var allt í einu horfinn og þá kom í ljós að hann hafði stungið af til að vera viðstaddur hátíðarhöld með stríðsfélögum sínum handan Ermasundsins.
Fór í regnfrakka og setti upp gömlu heiðursmerkin sín.
Lögreglunni var gert viðvart, en svo kom í ljós að hann hafði sest upp í rútu og var á leið til Frakklands.