Í dag er tilkynnt um uppbyggingu Frumkvöðlaseturs á Djúpavogi.
Það er gott og blessað, en dálítið virkar það eins og að setja á plástur þegar fóturinn er farinn af. Því ætlunin er að flytja allan kvóta frá Djúpavogi – þótt einhver smá frestun sé orðin þar á.
Eins hefur þetta verið í byggðarlögum víða um land. Kvótinn fer. Það er reynt að halda uppi einhverri atvinnu með styrkveitingum og með því að stofna „setur“.
Á sama tíma er ýmislegt á seyði hjá kvótahöfum þessa lands.
Viðskiptablaðið skýrir frá því að félagið Smáey sem var í eigu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, hafi skuldað 67 milljarða króna en sama og ekkert hafi fengist upp í kröfur.
En Guðbjörg Matthíasdóttir, kvótadrottning í Eyjum, eigandi Ísfélagsins, Lýsis, prentsmiðjunnar Odda og Morgunblaðsins, hafi keypt Íslensk-ameríska.
Á vefnum Tímarími má lesa að innan félagsins megi finna:
Meðal framleiðslufyrirtækja í eigu ÍSAM má nefna Mylluna, Ora, Frón og Kexsmiðjuna. ÍSAM er auk þess umboðsaðili Procter & Gamble hér á landi og flytur m.a. inn Pantene sjampó, Pringles flögur, Crest tannkrem, Pampers bleyjur, Ariel þvottaefni og Gillette rakvélar og rakblöð. Auk þess er ÍSAM umboðsaðili tóbaksfyrirtækisins Philip Morris.