Er stór hópur ungra karlmanna á Íslandi sem kann ekki neitt, lifir í deyfð og doða, verður jafnvel fátækt að bráð og þarf félagslega aðstoð?
Þetta eru stórar spurningar sem vakna eftir viðtal sem mátti hlýða á í morgunútvarpi Rásar 2.
Þar reifaði Ómar Valdimarsson efni skýrslu frá Rauða krossinum um fátækt á Íslandi. Ómar sagði:
Þetta eru strákar sem hafa að miklu leyti flosnað upp úr skóla, hafa lítið unnið eru heima og það er allt einhvern veginn glatað. Þeir finna sig hvergi, vita ekkert hvað þeir eiga af sér að gera og sitja í einhverjum doða og komast ekki út úr því.
Stærsti hópurinn sem þiggur framfærsluaðstoð frá sveitarfélögum er ungt fólk, sérstaklega ungir karlar, sagði Ómar í viðtalinu.
Það er náttúrulega alveg svakalegt ef þessum hópi heldur áfram að fjölga. Þetta er fólk á aldrinum 18 til 25 og upp í þrítugt, fólk sem aldrei hefur gert neitt og veit ekki hvernig það á að gera hluti.