Hér er mjög skýr og góður þáttur frá Al Jazeera þar sem er farið í saumana á franska olíufélaginu Elf og tengslum þess við Afríku.
Elf var kjarninn í því hvernig Frakkar héldu ítökum í gömlum nýlendum sínum í Afríku og hvernig þeir héldu harðstjórum sem voru þeim þóknanlegir við völd.
Í kringum Elf var líka gríðarlegt spillingarkerfi sem teygði anga sína út um frönsk stjórnmál.
Það var Eva Joly sem var rannsóknardómari í Elf málinu þegar hneykslið kom upp á yfirborðið á tíunda áratug síðustu aldar. Því lauk í raun með því að Elf var leyst upp – það var lykillinn að því að margir sluppu úr klóm réttvísinnar.
Þetta er merkilegur þáttur í heild sinni – hann er partur af stærri þáttaröð sem nefnist The French African Connection.
Elf þátturinn er númer tvö í röðinni. Um rannsókn Evu Joly er fjallað frá 39du mínútu – en í raun er fróðlegt að sjá þáttinn allan.