Eitt einkenni á þjóðfélagsumræðu á Íslandi er skortur á samræmi. Þjóðfélag þar sem ríkir fullkomið samræmi er náttúrlega óhugsandi, en kannski hefur þetta líka eitthvað með hagsmunatogstreitu að gera.
Tökum til dæmi gömlu grunnatvinnuvegina, sjávarútveg og landbúnað.
Í sjávarútvegnum gengur allt út á hagræðingu. Stjórn fiskveiða er sífellt réttlætt með skírskotun til hagræðingar.
Nú flytur útgerðarfyririrtækið Vísir kvóta og fiskvinnslu frá Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi.
Skýringin er hagræðing, hvað annað? En hagræðingin er ekki sérlega mikið fyrir íbúa Húsavíkur, Þingeyrar og Djúpavogs.
Í landbúnaðinum má helst ekki nefna hagræðingin. Þar eru viðhorfin þvert á móti að halda þurfi landinu og sveitunum í byggð – án tillits til hagræðis, peningasjónarmiða og skammtímagróða. Þar dettur engum í hug að snjallt sé að flytja vinnuaflið milli landshluta.