Hugsanlega má segja að botninn hafi dottið úr nýrri Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar í gær, þegar uppvíst varð um makrílsamninga Norðmanna, Færeyinga og ESB.
Þar staldrar maður einkum við tvö atriði:
– Samstarf við Noreg og Liechtenstein á vettvangi EES-samningsins verði eflt.
– Áhersla lögð á áframhaldandi öflugt norrænt og vestnorrænt samstarf til að efla enn frekar hagsmunagæslu á Evrópuvettvangi.
En þarna gerðist tvennt. Tvö ríki á hinu vestnorræna svæði, Noregur og Færeyjar, ákváðu að fara sína eigin leið og skilja Íslendinga útundan.
Og Norðmenn, sem eru meginstoðin í EES og borga megnið af kostnaðinum við samninginn, voru ekki beinlínis að sýna samstarfslund í garð Íslendinga eða vilja til að hafa þá með.