Því er haldið fram að Davíð Oddsson verið skipaður stjórnarformaður í Landsvirkjun í næsta mánuði.
Það er ekki trúlegt.
En hins vegar gæti vel verið að sé mikill þrýstingur frá vinum og aðdáendum Davíðs að ríkisstjórnin veiti honum einhverja slíka vegtyllu.
Enn sem komið er mun framboðið þó vera meira en eftirspurnin.
Forsætisráðherrann fyrrverandi hefur gengið í berhögg við ýmsa siði, en hann myndi væntanlega þurfa að hætta sem ritstjóri á Morgunblaðinu ef hann færi í svona stöðu. Ritstjóri dagblaðs getur tæplega verið yfirmaður í ríkisstofnun.
Tíminn leiðir þetta í ljós, en ríkisstjórnin má varla við því að safna fleiri glóðum elds að höfði sér.
Hvað um það?
Í mjög einkennilegum Staksteinapistli í morgun er lagt út af sögunni um gistivináttu Davíðs Oddssonar og Sigmundar Davíðs. Mörkin milli ritstjórnarefnis sem hefur birst í blaðinu um áratugaskeið og persónu hans hafa algjörlega þurrkast út.
Þarna er reyndar engu neitað, heldur einungis togað og teygt. Því það er satt að þeir hafa verið að hittast forsætisráðherrann fyrrverandi og forsætisráðherrann núverandi. Milli þeirra eru miklu nánari tengsl en milli fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.
Þetta er semsagt vinátta þvert á flokka, en þarf þó ekki að vera að þeir hafi verið saman á náttfötunum.