Í Kiljunni á miðvikudagskvöld fjöllum við um prentsmiðjuna Letur. Hún var lengi starfrækt á Grettisgötu, af Sigurjóni Þorbergssyni, og prentaði mikið af bókum á tíma svokallaðra fjölritunarskálda. Þetta var á árunum upp úr 1970 og fjöldi höfunda prentaði bækur sínar hjá Sigurjóni, sumir voru allsendis óþekktir og gáfu kannski bara út eina bók, aðrir voru stærri nöfn og höfðu fleiri titla eins og Dagur Sigurðarson, Steinar Sigurjónsson og Jón frá Pálmholti. Þetta var mikil og einstæð menningarstarfsemi.
Við fáum í þáttinn tvo þýðendur til að ræða stórvirki sem þau hafa íslenskað, það er Rúnar Helgi Vignisson með Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner og Ingunn Ásdísardóttir með Ó – sögur af djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen. Báðar bækurnar eru tilefndar til íslensku þýðingaverðlaunanna.
Saga Garðarsdóttir segir frá uppáhaldsbókum sínum.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Hjóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttir og Eftirköstin eftir Rhidian Brook.
Og við segjum frá könnun sem Kiljan efnir til og tengist íslenskum bókmenntum.
Dagur Sigurðarson var í hópi skálda sem lét prenta bækur í Letri. Þar höfðu skáldin frelsi til að gera eins og þau vildu, óháð smekk og takmörkunum útgefenda.