Það er gömul áróðurstækni frá tíma Sovétríkjanna að bendla óvinina við nasisma. Í áróðri Sovétsins voru nasistar allsráðandi í Vestur-Þýskalandi og jafnvel í Bandaríkjunum líka. Bandaríkjamenn voru helst aldrei sýndir nema í Ku-kux-klan búningi.
Pútín er ættaður úr þessum hugarheimi, hann kallar þá sem ráku spillingarstjórn Janúkovits frá völdum í Úkraínu nasista og gyðingahatara. Reyndar má benda á að Janúkovits fór frá eftir samningaviðræður þar sem tóku þátt utanríkisráðherrar þriggja Evrópusambandsríkja.
Í rússnesku er til orðið provokatsiya, á ensku er það þýtt sem provocation, á íslensku sem undirróður eða ögranir, nákvæmt heiti er ekki til. KGB var á sínum tíma með sérþekkingu í slíkum aðgerðum. Sagnfræðingurinn Anne Applebaum, höfundur bókanna Gulag og Iron Curtain, skrifar á blogg Washington Post um hvernig Pútín sviðsetur atburðarásina í Úkraínu í anda KGB.
Að öðru sem líka tengist Úkraínu.
Það er makalaust að lesa, til dæmis í leiðara Morgunblaðsins, að Vesturlönd séu svo slöpp að þau geti ekki mætt Pútín með hörðu.
Í hverju ætti slík harka að felast? Hernaðarúboði? Kjarnorkusprengjum? Viðskiptabanni?
Við lifum í hnattvæddum heimi. Rússland er fjarska illa statt efnahagslega. Ræningjabarónar hafa flutt auð landsins til aflandseyja – og staða eins og Lundúna. Olíuverð er ekki nógu hátt til að rússneska hagkerfið geti haldið í horfinu. Með aðgerðum sínum stórskaðar Pútín orðspor Rússa og viðskiptahagsmuni – á endanum mun það koma sér verst fyrir Rússa sjálfa. En um leið má leiða getum að því að krísa af þessu tagi henti Pútín til skamms tíma heimafyrir – þannig nái hann að beina athyglinni frá slæmu ástandi.
David Ignatius, sem einnig skrifar á vef Washington Post, segir að Pútín sé að gera stór mistök. Framferði hans einkennist af fortíðarþrá. Hann sakni gömlu Sovétblokkarinnar – stjórnarfarið í Rússlandi líkist æ meir austrænu einræði. Veikleikar þess blasi við efnahagslega og lýðfræðilega á meðan fyrrverandi leppríki Sovétríkjanna eins og Tékkland og Pólland eru farin að njóta stöðugleika og velmegunar í faðmi Evrópusambandsins og lýðræði hefur hvarvetna verið komið á meðal hinni fyrrum ófriðlegu Balkanþjóða.