Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, fer mikinn í túlkunum sínum sem birtast í skýrslu Hagfræðistofnunar um Evrópusambandið. Hann hafði samkvæmt skýrslunni „yfirumsjón með úttekt á aðildarferlinu og stöðu þess“.
Það er reyndar spurning hvers vegna Ágúst var einn skýrsluhöfunda, ef skoðaður er akademískur ferill hans er ekkert þar að finna sem bendir til þess að hann hafi neina sérfræðiþekkingu á því sviði. Hann hefur til dæmis ekki birt neitt um þessi mál svo séð verði.
En Ágúst treystir sér samt til að fullyrða að aðildarviðræðum við ESB sé „sjálfhætt“ vegna þess að þar fáist engar sérlausnir eða undanþágur.
Það horfir þannig við mér og það má algerlega lesa það út úr þeim skrifum sem ég lagði fram í viðaukanum. Sko það verður þá einhver að koma með eitthvað upp á borðið sem segir eitthvað annað. Ég hef ekki heyrt það.
Eiríkur Bergmann Einarsson er einn helsti sérfræðingur Íslands um Evrópumál. Hann hefur birt fjölda rita um þau eins og sjá má hér. Maður veltir fyrir sér hvers vegna Eiríkur, sem er með doktorspróf, hafi ekki verið fenginn til að vera meðhöfundur að skýrslunni. En Eiríkur tjáir sig um þetta á Facebook og segir ekki víst að álit hans „henti öllum sem vilji stýra umræðunni nú“.
Svo bætir hann við:
Annars er ég ekki viss um að höfundar skýrslunnar þekki til umræðunnar um undanþágur í ESB, hef allavega ekki rekist á þá í þeirri kreðsu.
Og ennfremur:
Menn eru að velta fyrir sér undanþágum og sérlausnum í aðildarviðræðum við ESB. Umfjöllun um margvíslegar slíkar er til að mynda að finna í samnefndum undirkafla í bók minni Frá Evróvisjón til Evru – allt um Evrópusambandið sem kom út hjá Veröld árið 2009. Hér er tengill á blaðagreinsem ég ritaði nokkru fyrr um það sama efni.
Öfugt við það sem kannski mætti af umræðunni ætla eru undanþágur og sérlausnir í ESB ekki óraunverulegri en svo að um þær hefur myndast heilt fræðasvið. Nýjasta afurðin er líkast til bók Rebeccu Adler Nissen, sem er sérfræðingur í undanþágum Dana en hefur nú einnig tekið saman undanþágur annarra ríkja. Hún segir í bókarkynningu að slíkum undanþágum (Opt-out’s) fari fjölgandi: Sjá lýsingu á bók hennar á vef útgefanda.
Hér er svo Wikipedia-grein um undanþágur í ESB.
Björg Thorarensen, lagaprófessor og varaformaður samninganefndar Íslands í viðræðunum við ESB, var gestur í þættinum Vikulokunum á laugardag. Björg segist telja að Ísland hefði getað markað sér mikla sérstöðu innan landsins vegna legu þess. Orð hennar má lesa á Evrópublogginu:
Ég tel – og ég upplifði það í vinnu minni í þessari samninganefnd og í þessum lagahópi – meðal annars að við vorum að kanna mjög – svona – margvíslega möguleika í þeim efnum.
Undanþágur, sérlausnir, þetta er spurning um hvaða heiti eru notuð á þetta en það var fyrirsjáanlegt – tel ég – að Ísland hefði getað markað sér stöðu, sem er ekki sambærileg við neitt annað aðildarríki eða umsóknarríki, einfaldlega út af sinni – ja við getum sagt – legu langt út fyrir önnur ríki Evrópusambandsins. […] Evrópusambandið á til ýmsar skilgreiningar fyrir svæðin, það er talað um svokölluð ystu svæði […] við erum að horfa til ríkja t.d. eins og Kanaríeyja, sem að vísu eru hluti af Spáni og svo framvegis. […]
Aðalatriðið er að sérstök staða þessara ríkja – lega þeirra og atvinnuhættir – er þannig að Ísland er eina ríkið inni í Evrópusambandinu, sem mundi hafa viðlíka sérstöðu. Og það er mjög margt sem það getur – í stað þess að við séum að tala um að Ísland fái undanþágur – þá hefur það sérstaka skilgreiningu og þá er ekki spurning um undanþágur.
Þetta er nokkuð sem við fórum af stað með, könnuðum til hlítar og ræddum, ja, við fulltrúa Evrópusambandsins – reyndar í mörgum samningsköflum – og það var ekkert búið að útiloka á neitt í þeim efnum; hvernig væri hægt að skilgreina stöðu Íslands sem algjörlega einstaka í mjög margvíslegu tilliti miðað við önnur Evrópusambandsríki og þannig værum við ekki að tala um einhvers konar undanþágur heldur sérstakar skilgreiningar.
Ennfremur kom fram í viðtalinu við Björgu að þessar upplýsingar hefðu komið fram í minnisblöðum sem hefðu verið lögð fyrir utanríkismálanefnd Alþingis og í viðræðum við nefndarmenn.