Enginn er eyland segir í frægu kvæði, en sumir eru kannski meiri eylönd en aðrir.
Það gæti átt við um íslenskan landbúnað.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði á Búnaðarþingi nú um helgina að Íslendingar flyttu inn 50 milljónum krónum meira af matvöru á dag umfram það sem þeir flyttu út.
Kannski lítur þetta svona út frá sjónarhóli landbúnaðarins, en Friðrik Jónsson dró þessar tölur Hagstofunnar fram á Facebook:
Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland er eitt mesta matvælaframleiðsluland í heimi – matvælaframleiðsla er ein helsta undirstaða velmegunar á Íslandi. Þar eru fiskveiðar í langstærstu hlutverki, en þær kunna að gleymast inni á Búnaðarþingi sem þó var haldið í Hörpu, með yfirsýn yfir stærstu fiskveiðihöfn á Íslandi.
Menn geta líka orðið ansi kokhraustir á svona fundum, eins og landbúnaðarráðherrann (sem er reyndar sjávarútvegsráðherra líka) sem sagði:
Við Íslendingar ætlum því ekki að vera upp á aðrar þjóðir komnir með matvælaframleiðslu – en á því veltur ekki hvað síst grundvöllur sjálfstæðrar þjóðar.
Við mættum alveg vera duglegri við að borða fiskinn sem við veiðum Íslendingar, margt í sambandi við fiskneyslu lærðum við reyndar af útlendu fólki. En á töflunni hér að ofan sjáum við að verulega hallar á varðandi kornmeti, grænmeti og ávexti. Og Ísland hentar heldur ekki til kaffiræktunar.
Við getum látið okkur dreyma, en seint verða bylgjandi hveitiakrar hér á Íslandi og ávaxtalundir eru hér af skornum skammti. Og margt þurfum við að flytja inn til að hægt sé að byrja slíka ræktun.
Að því sögðu er um að gera að framleiða hér sem fjölbreyttust matvæli – nokkuð af þeim mátti sjá á matarmarkaði í Hörpu um helgina – en við skulum samt ekki tala okkur upp í slíkt fár að halda að við getum verið sjálfbær á þessu sviði, ekki upp á aðra komna. Við reyndum það einu sinni – og það gekk ekki vel. Sjálfstæðið sem við höfðum í matvælaframleiðslunni á þeim tíma var ekki mjög happadrjúgt.