Vandinn við ummæli Bjargar Thorarensen lagaprófessors í Vikulokunum í gær er að þau eru algjörlega frá sjónarhóli stjórnmálamanna – þeirra sem ráða hverju sinni.
En fyrir hverja eru stjórnmálamennirnir? Stjórna þeir fyrir sjálfa sig – eða fyrir fólkið í landinu? Þjóðina?
Björg segir að sé ómögulegt að halda þjóðartkvæði um mál sem ríkisstjórn er mótfallin. Það sé ekki á stjórnina leggjandi að koma því í framkvæmd.
Við sáum reyndar í tvennum Icesave atkvæðagreiðslum að ríkisstjórn þurfti að beygja sig undir þjóðarvilja. Það er hugtak sem forseta Íslands er mjög tamt.
Það var ekki endilega með glöðu geði, en á endanum tókst þeirri ríkisstjórn að búa svo um hnútana að Ísland vann sigur í Icesave málinu fyrir alþjóðlegum dómstóli.
Ef vilji þjóðar er kallaður fram í almennri atkvæðagreiðslu er tvennt til ráða. Sitjandi ríkisstjórn fylgir þessum vilja – við það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt. Ef henni er það algjörlega á móti skapi, segir hún af sér, aðrir taka við eða boðað er til kosninga.
Við það er heldur ekkert óeðlilegt – þannig virkar lýðræðið.
En svo er reyndar annar möguleiki sem benda má á – að þjóðin einfaldlega segi af sér.
— — —
En vandinn er auðvitað líka að við höfum enga lagaumgjörð um þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi, eins og ég benti á í grein um daginn. Þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt stjórnarskrá eru einungis haldnar ef forseti neitar að staðfesta lög og ef breyta á kirkjuskipan og ef setja á forseta af.
Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifar grein um þjóðaatkvæðagreiðslur og beint lýðræði á vef Pressunnar. Þar er margt mjög skynsamlega athugað eins og Jóns er von og vísa.
Málið er að ef við ætlum að halda áfram að flagga þeim í tíma og ótíma þarf að breyta stjórnarskránni, en á því virðist ekki vera mikill áhugi um þessar mundir, ekki ef marka má skipan síðustu stjórnarskrárnefndar – það er ekki beinlínis eins og þar séu framsæknir lagaspekingar í forystu.