fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Eyjan

Um ráðgefandi og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur

Egill Helgason
Föstudaginn 28. febrúar 2014 12:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Magnúsdóttir segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið yrði bara „ráðgefandi“.

Þetta er rétt svo langt sem það nær, en í leiðinni nokkuð villandi.

Einu þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi sem eru ekki ráðgefandi eru þær sem eru boðaðar vegna þess að forseti Íslands synjar lögum staðfestingar. Þannig var um Icesave atkvæðagreiðslurnar tvær og atkvæðagreiðsluna um fjölmiðlalögin sem þáverandi ríkisstjórn sveikst um að halda.

Forsetinn getur hins vegar ekki gripið inn í atburðarásina núna, jafnvel þótt segja megi að sé gjá milli þings og þjóðar – svo notað sé hans eigið orðalag. Það sem nú er deilt um er þingsályktunartillaga, ekki lagafrumvarp. Það þarf ekki staðfestingu forseta á þingsályktunartillögur.

Raunar er það svo að ef Íslendingar vilja ganga í ESB þarf að breyta stjórnarskránni og ákvæðum þar um fullveldisframsal. Líklegt er að EES samningurinn í núverandi framkvæmd brjóti gegn stjórnarskránni. Meira að segja andstæðingar ESB innan stjórnarliðsins gera sér grein fyrir því að slíkar breytingar á stjórnarskrá eru nauðsynlegar.

Stjórnarskránni sjálfri má breyta án þjóðarakvæðagreiðslu, en hins vegar eru í henni ákvæði um kirkjuskipan megi ekki breyta nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ljóst er að Ísland myndi aldrei ganga í ESB nema samningur yrðu samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. En yrði hún ekki líka ráðgefandi? Það er ekkert í núverandi stjórnarskrá sem kallar á slíka atkvæðagreiðslu.

Á tíma Jóhönnustjórnarinnar héldu andstæðingar ESB því fram að ríkisstjórnin myndi jafnvel svíkja fyrirheit um þjóðarakvæðagreiðslu um aðildarsamning. Gagnrýnt var að slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki „bindandi“. Fáum datt í rauninni í hug að stjórnin myndi teyma Ísland inn í ESB án samþykkis kjósenda – pólitískt væri það einfaldlega ekki hægt og ESB myndi heldur ekki fallast á það – en stjórnskipulega var varla hægt að búa öðruvísi um hnútana.

Allt ber þetta að sama brunni, nefnilega því að setja þarf almennilegan lagaramma utan um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þeim er stanslaust flaggað í umræðunni, en umgjörðinn er svo óviss að stjórnmálamenn hafa komist upp með að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem var tæplega fimmtíu rósenta kjörsókn. Hún var ráðgefandi, en þeir sem voru á móti sögðu hana vera skoðanakönnn en þeir sem voru með vildu meina að hún væri bindandi þrátt fyrir allt.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið