Það er greinilegt á málflutningi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra að hann getur varla beðið eftir því að draga endanlega til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.
Hann finnur Evrópusambandinu allt til foráttu – og þarf enga skýrslu Hagfræðistofnunar til. Evrópusambandinu er meira að segja að kenna um ástandið í Úkraínu og það hentar ekki jafn velmegandi ríkjum eins og Íslandi, ef marka má ráðherrann.
Eins og ég hef áður sagt er skýrslan að reynast vita gagnslaus. Ein meginástæða þess er sú að höfundar skýrslunnar virðast ekki þora að koma fram til að segja fólki hvað stendur í henni.
Það er sérlega dapurlegt. Skýrsluhöfundar hefðu þurft að taka eins og einn dag til að fara yfir efnisatriðin, svo hefðu þeir getað látið sig hverfa úr umræðunni. Með því að vera ósýnilegir eru þeir í raun að bregðast hlutverki sínu.
Almenningur – sem á miklu betra skilið – þarf því að reiða sig á útskýringar stjórnmálamanna á því hvað stendur í skýrslunni.
Þessar útskýringar gerast æ háværari og eru nú komar á stig hávaðarifrildis.
Það verður í raun æ dularfyllra hvers vegna aðildarumsóknin er ekki dregin til baka – en líklega er svarsins við því að leita innan Sjálfstæðisflokksins.