Mikil ádrepa á fríverslunarsamning Íslands og Kína birtist hér á Eyjunni í dag. Höfundurinn er Árni Snævarr, sá margreyndi fréttamaður, sagnfræðimenntaður að auki, hann notar tækifærið til að segja sig úr Samfylkingunni. Tekur reyndar fram að starf hans í flokknum hafi verið falið í því einu að kjósa í prófkjörum.
En Árni beinir sjónum sínum einkum að framgöngu Samfylkingarmanna og forseta Íslands í fríverslunarsamningunum við Kína.
Hvers vegna í ósköpunum lá svo mikið á að gera þennan samning?
Getur verið að Össur hafi viljað breiða yfir árangursleysi viðræðnanna við ESB þar sem þeim fágæta árangri var náð að málstaður Íslands þokaðist ekki millimetra nálægt samningi? Eða vóg þyngra hégómagirni forsætisráðherrans og draumar um Kínafrægð?
Hvernig stendur á því að Samfylkingin hreyfir engum athugasemdum við lof forsetans um fjöldamorðingja á Sri Lanka, þátttöku í Ólympíuleikunum gegn réttindum samkynhneigðra – og spilltan ríkiskapítalisma Kína?
Ég ætla að sleppa því að tala um ruglið um Norðurslóðir því ég mun gera því ítarlega skil á öðrum vettvangi. Athyglin sem ÓRG veitir Norðurslóðum og Kína er í raun ekkert annað en að finna einhvern valkost í utanríkisstefnu við aðild að ESB. Þetta er ekki leið sem Evrópusinnaður flokkur fer jafnvel þótt Össur bráðni þegar forsetinn lokkaprúði brosir til hans.
Árni telur líka að samningurinn hafi takmarkað gildi og geti reyndar verið skaðlegur:
Össur talaði í tvær blaðsíður af þremur í útprentinu af ræðu sinni um fisk. Það er maklegt. Þeir sem græða á fríverslun við Kína eru útvegsmenn. Sá sem tapar er ríkissjóður Íslands og skattgreiðendur, 2-3 milljarðar. Fyrir það mætti borga helming til tvo þriðju þróunaraðstoðar. Er ekki nóg af hafa tvo stjórnmálaflokka og hálfan (VG) og forsetann sem ganga erinda útvegsmanna ? Við þurfum ekki fleiri sægreifaflokka.
Og loks:
Hér í eina tíð þótti sjálfsagt forsprakkar Sósíalistaflokksins og verkalýðshreyfingarinnar færu í “hvíldar- og hressingarferðir til Sovétríkjanna” og þá var áfangastaðurinn gjarnan Sotsí við Svartahaf, þar sem heimsleikar í hommahatri fara nú fram. Hefur Samfylkingin ekkert lært af þjónkun eins forvera síns við einræðið í Sovétríkjunum?
Ég er ekki sá eini í hópi stuðningsmanna flokksins sem undraðist að ekki heyrðist hvorki hósti né stuna um afdrif andófsmanna í Kína eða einræði og spillingu kommúnista og svívirðilegan aðbúnað verkafólks í landinu. Nei, besti vinur Bessastaðabóndans óð á súðum með dollaramerki í augunum.