Gabriel Axel, danski kvikmyndaleikstjórinn, er látinn í hárri elli, 95 ára. Hans er fyrst og fremst minnst fyrir kvikmyndina Gestaboð Babettu. Hann fékk Óskarsverðlaun fyrir hana, fyrstur Dana.
Í Gestaboði Babettu gekk allt upp hjá Axel. Leikur, saga, umgjörð. Efnið hentaði honum algjörlega, sagan sem var færð á jósku heiðarnar, hin ögn dulúðga kímni sem var komin frá Karen Blixen, hið skemmtilega hátíðlega orðfæri.
Annars var Gabriel Axel afar mistækur leikstjóri og hann náði aldrei þessum hæðum fyrr né síðar. Hann vann mikið fyrir sjónvarp og telst einn af frumkvöðlum Dana í gerð sjónvarpsmynda.
Flestir eru sennilega búnir að gleyma því en Gabriel Axel tengist íslenskri kvikmyndagerð á tíma þegar hún var nánast ekki til. Hann leikstýrði kvikmyndinni Rauðu skikkjunni sem var tekin upp á Íslandi og frumsýnd 1967. Þetta var stórmynd, sameiginleg framleiðsla Nordisk film og Sovétmanna. Hinn íslenski framleiðsluaðili myndarinnar var Edda Film, og Íslendingar fóru með nokkur hlutverk, meðal annarra Gísli Alfreðsson, Flosi Ólafsson og Borgar Garðarson.
Aðalhlutverkin léku Rússinn Oleg Vidov, danska ungstirnið Gitte Hænning (sú sem söng Ich will einen Cowboy als Mann) og stórleikarinn sænski Gunnar Björnstrand, sem lék í mörgum frægustu myndum Ingmars Bergman.
Hér má sjá nakta karlmenn í atriði úr Rauðu skikkjunni. Meðal þeirra sem bregður fyrir eru áðurnefndir Gísli og Borgar.