Tvær fréttir úr sjávarútvegnum vekja athygli í dag.
Annars vegar er það Kolbeinn Árnason, hinn nýi framkvæmdastjóri LÍÚ, sem segir beinum orðum að ESB sé ekki óvinurinn í makríldeilunni heldur Norðmenn:
Það er eiginlega orðið þannig að það er Noregur. Við náðum niðurstöðu með Evrópusambandinu eða sameiginlegum skilningi í haust um það hvernig mætti leysa þetta, Færeyingar eru komnir um borð og fylgja okkur í þessu en Noregur er alveg þver í þessu.
Hins vegar er það fréttin um sölu Stálskipa í Hafnarfirði. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið einhverjir hörðustu verjendur kvótakerfisins. Nú selja þeir skip til Rússlands og kvóta til Síldarvinnslunnar og Útgerðarfélags Akureyringa. Hafnarfjarðarbær hefur áhyggjur og vill reyna að halda kvótanum innan bæjarfélagsins. Þetta er gömul saga og ný.
Og þar er athyglisvert að í fréttinni segir að eigendur Stálskipa ætli að nota peningana til að snúa sér að fasteignaviðskiptum. Þannig verður haldið áfram að blása út bóluna sem er að myndast á fasteignamarkaði.