Í frétt sem flutt var á Stöð 2 í gær og fjallaði um mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar vantaði mikilvægan punkt.
Nefnilega að líklega þyrfti að rífa höfuðstöðvar 365 – og þar með Stöðvar 2 – ef til slíkra framkvæmda kæmi.
Hún myndi óhjákvæmilega kalla á breikkun Miklubrautar, allt frá Snorrabraut og upp að Kringlumýrarbraut með tilheyrandi niðurrifi húsa í Hlíðunum.
Þar hlýtur gamla Lídó, sem nú hýsir 365, að vera einna fyrst, enda stendur það næst brautinni af öllum húsum.
Jú, það hafa verið uppi hugmyndir um að leggja Miklubrautina í stokk á þessum kafla. Þá færu bílarnir væntanlega ofan í jörðina niðri við Snorrabraut og kæmu upp við mislægu gatnamótin við Kringlumýrarbrautina.
En geta menn ímyndað sér hvað slíkar framkvæmdir myndu kosta? Og raskið sem yrði af þeim á framkvæmdatímanum?