Í Kiljunni annað kvöld fjöllum við um nýútkomna bók þar sem er rýnt í list Karólínu Lárusdóttur. Við förum á Hótel Borg, en þar innan veggjanna er Karólína alin upp og þar fann hún sér ríkulegt myndefni. Höfundur bókarinnar er Aðalsteinn Ingólfsson.
Við hittum sonnettuskáldið Valdimar Tómasson. Ný bók hans nefnist Sonnettugeigur, en þar yrkir Valdimar með hefðbundnu ljóðformi af mikilli list. Við fáum líka að kíkja í skjóðuna hjá Valdimari, en þar leynast yfirleitt ljóðabækur eftir góðskáld.
Sagfræðingurinn Guðný Hallgrímsdóttir segir frá ævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur. Guðrún var vinnukona norður í Eyjafirði á síðari hluta 18. aldar, en eftir hana er skráð ævisögubrot sem er afar fróðlegt, varpar ljósi á líf alþýðufólks og sýnir einnig skemmtilega konu úr alþýðustétt.
Færeyski rithöfundurinn Carl Jóhan Jensen kemur í þáttinn. Hann er höfundur mikils skáldverks sem nefnist Ó – sögur um djöfulskap, en bókin er nýkomin út á íslensku í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: HhhH eftir Laurent Binet í þýðingu Sigurðar Pálssonar og Blindhríð eftir Sindra Freysson.