Í nóvember voru tillögur skuldaniðurfellingarnefndarinnar kynntar með mikilli viðhöfn. Fréttamenn voru boðaðir í Hörpu, það var haldið mikil glærusýning, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson voru báðir viðstaddir.
Það var semsagt mikil alvara á ferðinni. Staðreyndin er líka sú að niðurstöðurnar voru ekki nema að hluta til komnar frá nefndinni heldur höfðu þær orðið til í löngum og ströngum samningaviðræðum milli flokksformannanna.
Ekkert af þessu tagi gerðist þegar tillögur verðtryggingarnefndarinnar voru kynntar nú í vikunni. Enginn ráðherra var viðstaddur. Blaðamannafundurinn var haldinn á stað sem líktist skólastofu. Það var engin viðhöfn – og, það sem skiptir meira máli, enginn pólitískur stuðningur.
Það er ekki hægt að segja eins og Ólafur Arnarson gerir að skýrsla nefndarinnar komi í bakið á forsætisráðherra og ríkisstjórninni. Þeir létu skuldaniðurfellinguna til sín taka meðan hún var enn á nefndarstiginu og hefðu getað gert slíkt hið sama hvað varðar verðtrygginguna. Staðreyndin er einfaldlega sú að málið er ekki komið á neinn rekspöl innan ríkisstjórnarinnar.
Enda segir Sigmundur Davíð að kannski verði hægt að afnema verðtryggingu, þrátt fyrir niðurstöðu nefndarinnar, en Bjarni Benediktsson segir að allt eins megi búast við frumvörpum byggðum á niðurstöðum nefndarinnar á þessu ári. Málið er semsagt órætt á ríkisstjórnarstigi.
Misjafnlega mikil alvara. Tillögur verðtryggingarnefndarinnar voru tilkynntar á stað sem líktist skólastofu á meðan tillögur um skuldaniðurfellingu voru kynntar í Hörpu að viðstöddum forsætisráðherra og fjármálaráðherra.