Ég fór í menningargöngu um Reykjavík í dag. Það gustaði mjög við Hallgrímskirkju og þar þarf maður að ströggla við að standa uppréttur á svellbunkum. En Reykjavík er að breytast mikið – það er fólk á ferli í borginni liðlangan daginn og fram á kvöld, gangandi fólk. Ferðamennskan dregur vagninn – hinir innfæddu fylgja eftir. Allt í einu virka hverfi eins og Hlemmurinn bara býsna sjarmerandi. Og ég sé ekki betur en að Hverfisgatan muni ganga í endurnýjun lífdaga þegar hún verður opnuð upp á nýtt eftir lagfæringar.
Ég fór á Kjarvalsstaði til að ná síðasta sýningardegi á verkum eftir Sovétmanninn Alexander Rodsénkó. Þetta er bolsévískur byltingarfútúrismi, nokkuð heillandi til að byrja með þar sem eru myndir af skáldinu Majakovskí og ástkonu hans Lili Brík og bóhemískur blær yfir öllu – en svo snýst þetta upp myndir af fjöldagöngum við Kremlarmúra og þrælum Sovétsins sem eru að grafa skipaskurði með höndunum einum og þá nær hryllingurinn yfirhöndinni.
Í galleríinu Kling & Bang við Hverfisgötu er sýningin The Visitors eftir Ragnar Kjartansson. Þetta er safn af kvikmyndum sem er stillt upp saman, þær eru teknar í gömlu húsi í ofanverðu New York fylki og sýna fólk sem spilar á hljóðfæri í þessari merkilegu umgjörð. Þetta er sett upp af mikilli nákvæmni og útkoman er hrífandi. Maður getur dvalið lengi, hlustað á tónlistinna og notið hughrifanna. Ragnar er orðinn stórstjarna í listaheiminum – það sem hann gerir er glatt, bjartsýnt og jákvætt. Það má líka.
Ég hafði spurnir af öðrum menningarviðburðum. Mér er sagt að Ólafur Darri hafi slegið í gegn sem Hamlet. Maður verður að fara að sjá það. Og svo hitti ég fólk sem var himinlifandi eftir Vínartónleika hjá Sinfóníunni.
Menningarlífið blómstrar í borg sem er sannarlega að verða skemmtilegri en forðum.