Nú eru settar fram kenningar, byggðar á rannsóknum, skilst manni, um að lestur bóka hafi góð áhrif á heilastarfsemina. Þau sé jafnvel hægt að merkja eftir lestur einnar bókar.
En það hlýtur þó að skipta máli hvaða bók það er.
Ég var í skóla með pilti sem varð hálf tjúllaður af því að lesa Nietzsche. Mikill fjöldi Íslendinga varð sósíalistar og kommúnistar af því að lesa Bréf til Láru.
Íslandsklukkan blæs manni brjóst þjóðrembu – Tómas Jónsson metsölubók tekur hana alla í sundur lið fyrir lið.
Sálmurinn um blómið fjallar um fullorðinn mann sem er alltaf að þvælast með lítilli stúlku. Það er allt í mesta sakleysi, en núorðið heyrist manni að svona sé tabú.
Það má efast um góð áhrif nokkurra af útbreiddustu bókum allra tíma, Rauða kvers Maós, Kommúnistaávarpsins, Mein Kampf og ýmissa trúarrita.
En líklega er hér átt við að athöfnin að lesa hafi góð áhrif á virkni heilabúsins. Það má vel vera.