

Fjölgunin í félagi Zúista svokallaðra vekur upp spurningar um hvort nýjar svikamyllur séu skárri en gamlar mjög flóknar svikamyllur sem hafa lifað lengi.
Frá því var greint í gær að bak við rekstrarfélag zúismans stæðu ungir menn sem liggja undir grun um fjárglæfra – og hefur verið um þá fjallað í fjölmiðlum í tengslum við frumkvöðlasíðuna Kickstarter.
Samt fjölgaði í Zúistafélaginu í gær, eftir að fréttirnar voru birtar. Meðlimir eru sagðir vera orðnir meira en þrjú þúsund.
Markmið zúistanna er að fá til sín sóknargjöld sem eru innheimt með sköttum og dreifa þeim aftur til greiðenda.
Sumir segja að þetta geti ekki verið trúfélag – en það er svosem spurning hvaða skilyrði trúfélög þurfa að uppfylla. Ekki getum við farið að segja fólki hvað það á trúa – það er einmitt fídusinn við trúarbrögð að þau njóta frelsis til átrúnaðar.
En það sem er áhugaverðast í þessu er að þessi fjöldi er tilbúinn að taka þátt í zúismanum þrátt fyrir grun um að brögð séu í tafli. En svo er auðvitað hitt að milljarðar manna aðhyllast trúarbrögð án þess að hafa nokkra vissu um nema til þeirra sé stofnað af loddurum.
Eða hvað segja allir þeir sem hafa gengið til liðs við zúismann? Þessi þrjú þúsund? Zúistarnir eru nú orðnir fleiri en ásatrúarmenn og múslimar – en kannski vilja þeir ekki annað en að fá peninginn sinn til baka?
