
Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur er einn mesti áhugamaður um veður á Íslandi. Hann var eitt sinn í sjónvarpsþætti hjá mér að ræða þetta hugðarefni sitt, var bráðfyndinn, eins og hann á að sér – hann hefur sérlega næmt skopskyn eins og þeir vita sem fylgjast með honum á Facebook. En veðrið er líka alvörumál hjá honum, í Mogganum í dag er hann titlaður sem veðursagnfræðingur.
Sigurður hefur skoðanir á veðri – og ég verð að viðurkenna að ég er oftar en ekki sammála honum (eins og hann hata ég þegar fólk er farið að tala um að haustið sé komið í ágúst). Þótt ég sé vaxinn eins og norrænn karlhlunkur kann ég best við mig í hlýju suðrænu loftslagi – helst einhvers staðar við strönd. Vona að ég muni geta eytt ellinni á slíkum stað.
Sigurður Facebookvinur minn skrifar um veðrið í dag:
Nú er næst mesta snjódýpt sem mælst hefur i Reykjavík í nóvember og frostið er 7 stig. Kalt verður áfram. Fljótlega verður þetta skítugur klaki í staðnaðri kulda og hálkutíð. Að nokkur maður skuli fagna þessu og taka það fram yfir mildi og hógværð! Sem ríkt hefur hingað til.