

Manni sýnist að teikningar að mosku í Reykjavík séu ljómandi fallegar og smekklegar. Húsið ætti að falla vel að umhverfinu og þarna er meira að segja unnið með hið þjóðlega byggingarefni, torf.
Það getur tekið langan tíma að koma upp tilbeiðsluhúsum og manni heyrist að Salman Tamimi, formaður Félags múslima, sé ekki alveg viss um hvernig fjármögnunin á að vera. Hún má alls ekki vera í gegnum vafasama trúbræður í Saudi-Arabíu eða Persaflóaríkjum. Það er dálítið bjartsýnt að 200 manns í söfnuðinum gefi milljón hver, eins og Salman talaði um í sjónvarpinu í kvöld. En hvað veit maður?
Þolinmæðin getur þó reynst ágæt í þessu efni. Tími guðdómsins er líka langur, þar ríkja ekki nein skammtímasjónarmið. Við þurfum ef til vill ekki ekki að nefna hversu langan tíma það tók að byggja Péturskirkjuna í Róm, nú eða Sagrada Familia Gaudis í Barcelona. Hún hefur verið í byggingu síðan 1882 en nú er stefnt á að klára hana 2026.
Landakotskirkja, tilbeiðsluhús kaþólskra á Íslandi, hefur í raun aldrei verið kláruð. Það vantar toppinn á turninum. Hallgrímskirkja var í byggingu í næstum fjóra áratugi. Á löngu tímabili stóð kirkjubyggingin í stað, það var hrært í eina og eina steinsteypufötu þegar sóknarnefndin hafði efni á. En kirkjan reis með mikilli þrautseigju og þolinmæði og er nú bæjarprýði – eins og moskan í Sogamýri verður væntanlega með tíð og tíma.

Moskubyggingin er teiknuð af arkitektunum Gunnlaugi Stefáni Pálssyni og Piu Bickmann.
Við getum svo borið hana saman við teikninguna að kirkju rétttrúaðra í Reykjavík. Verður að segjast eins og er að samanburðurinn er kirkjunni mjög í óhag. Hún er frekar púkaleg, svona eins og stöðluð teikning sem kemur í pósti einhvers staðar að utan. Maður gæti jafnvel talað um kits í þessu sambandi.
