

Jón Kalman Stefánsson fékk í dag verðlaun tímaritsins Lire (Lestur) fyrir bestu erlendu bókina í Frakklandi þetta árið. Þetta er mikill heiður, það verður bara að segjast eins og er að Frakkar eru líklega mesta bókmenntaþjóð í heimi. Þeir eru líka opnir fyrir erlendum bókum, ólíkt því sem tíðkast í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem útlendir höfundar eiga miklu erfiðara uppdráttar. Arnaldur er feiki vinsæll í Frakklandi, þar sló Auður Ava í gegn áður en hún varð vinsæl á Íslandi og nú er Jón Kalman orðinn stórstjarna þar, gefinn út af sjálfu Gallimard, einu virtasta bókaforlagi heims.
Frábær árangur semsagt.
En svo er annar höfundur sem fékk verðlaun Lire fyrir bestu bókina, heilt yfir, eins og sagt er. Bestu bók ársins. Það er Alsírmaðurinn Boualem Sansal fyrir skáldsöguna 2084: Endalok veraldarinnar.
Ég minnist þessa höfundar með miklum hlýhug. Ég hitti hann á bókamessunni í Frankfurt 2011 og tók við hann viðtal fyrir Kiljuna. Þá fannst mér að þessi smávaxni maður, með sítt hár tekið saman í tagl, falleg og lifandi augu, væri einhver hugaðasti náungi sem ég hefði hitt. Hann var þá að veita friðarverðlaunum þýskra bóksala viðurkenningu.
Sansal sagði mér að líf hans væri að sumu leyti óþolandi. Hann býr rétt hjá Algeirsborg. Annars vegar væru íslamistarnir sem vildu drepa hann en hins vegar væri ríkissjórn landsins, þar sem herinn hefur tögl og hagldir, sem þyldi hann ekki. Flestir rithöfundar og menntamenn sem hefðu tök á væru löngu farnir úr landi. En hann væri þarna enn.
Ég spurði Sansal hvort hann vildi kannski koma á Bókmenntahátíðina á Íslandi, þar væri mjög vingjarnlegt andrúmsloft. Jú, hann langaði til þess. En af því hefur ekki enn orðið.
