

Þessi ljósmynd kom upp úr kassa í tiltekt hér heima. Eins og greina má ef rýnt er í myndina er hún komin úr gleraugnaversluninni Fókus sem var í Lækjargötu í eina tíð. Sigurveig kona mín rak síðar veitingastað í sama húsi, það er sjálfsagt skýringin á því að myndin er hingað komin.
Myndin er augljóslega tekin 1963. Þarna hefur verið settur upp sérstakur minningargluggi um John F. Kennedy, hinn myrta Bandaríkjaforseta. Það eru blóm í glugganum, kerti, mynd af Kennedy, dökk tjöld, allt með miklum virðuleikablæ.
Sýnir hvílíkur harmdauði þessi stjórnmálamaður var heimsbyggðinni, en þess má líka geta að eigendur búðarinnar voru Frank Cassata og kona hans Áslaug Kjartansdóttir. Frank Cassata var Bandaríkjamaður af ítölskum ættum sem kom til Íslands með Bandaríkjaher í heimsstyrjöldinni en settist síðar að hér.
