

Rússar og Tyrkir eru gömul óvinaveldi. Þau hafa reyndar ekki átt í stríði síðan á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Tyrkir börðust með Þjóðverjum. En þegar Nató var stofnað var lykilatriði að Tyrkir yrðu með, enda eru þeir í strategískri stöðu við Bosporussund, en þar er eina siglingaleið Rússa út í Miðjarðarhafið.
Rússar og Tyrkir kepptu lengi um völd á Balkanskaga. Þar veittu Rússar þjóðum sem stundum áttu reyndar líka í innbyrðis stríði – Grikkjum, Búlgörum og Serbum. Það eimir eftir af þessu, Grikkir, sem líta á Tyrki sem helsta óvin sinn, eru samkvæmt hefð hliðhollir Rússum. Og í hinu hryllilega stríði í gömlu Júgóslavíu undir lok síðustu aldar voru Rússar helstu bandamenn Serba.
Í Kákasus og við suðurlandamæri Rússlands hafa líka verið dregnar línur milli Rússa og Tyrkja. Rússar hafa þar löngum verið í óða önn að berja niður múslima – nú síðast í hinu hryllilega blóðbaði í Tsétséníu, stríði sem var ekki síður grimmilegt en það sem er nú háð í Sýrlandi. Á móti herjuðu Tyrkir á kristna menn eins og í fjöldamorðunum á Armenum á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þá voru Armenar meðal annars hraktir út í sýrlensku eyðimörkina þar sem þeir dóu unnvörpum, á svæði þar sem nú er barist í öðru stríði.
Styrjaldirnar milli Rússa og Tyrkja eru fjölmargar í sögubókum. Rússar sigruðu í flestum stríðunum á 19. öld, þá voru þeir rísandi heimsveldi meðan veldi Ottómana í Tyrklandi og Arabíu var á löngu hnigunarskeiði. Í frægustu styrjöldinni, Krímsstríðinu svokölluðu 1853-1856, skárust Vesturveldi í leikinn til að stöðva framrás Rússa – Bretar, Frakkar og Ítalir töldu sér í hag að viðhalda Ottómanríkinu.
Það er vert að rifja þetta upp nú þegar rússnesk orrustuþota er skotin niður af Tyrkjum. Hagsmunir Rússa og Tyrkja skarast víða. Og það er dálítið kaldhæðnislegt að Pútín Rússlandsforseti og Edrogan, leiðtogi Tyrklands til margra ára, eru að vissu leyti samhverfur. Þeir eru báðir spilltir af langri valdasetu, einráðir, þola ekki gagnrýni, hafa jafnt og þétt verið að herða tökin gagnvart andstæðingum sínum. Báðir gangast þeir upp í að stunda flókið valdatafl, en þeir eru líka báðir praktískir menn á sinn hátt – hugsa fyrst og fremst um að tryggja valdahagsmuni sína og klíkubræðra sinna. Lykillinn að Pútín er að gleyma ekki að hann er KGB maður og hefur í raun aldrei sagt skilið við þau samtök.
Að því sögðu er varla hægt að segja að mikil hætta sé á ferðum. Rússar iðka ögranir víða á alþjóðavettvangi (rússneskar sprengjuflugvélar flugu inn í íslenska lofthelgi fyrr á þessu ári og það virðist alveg ljóst að vélin sem var skotin niður í gær fór inn í tyrkneska lofthelgi, hvort sem það var af slysni eða ásettu ráði) – þetta er leikrit sem er leikið með sorglega hnignun rússneska ríkisins að bakgrunni, efnahagurinn hefur versnað mikið og kjörum almenning hrakar. Pútín talar mjög digurbarkalega, hann er bandamaður Assads, sem er einn af höfuðóvinum Tyrkja. Tyrkneska stjórnin leikur tveimur skjöldum gagnvart ISIS (þar spilar ekki síst inn í baráttan milli súnní og shía múslima), en það verður sífellt meira áberandi hvernig erlend ríki eru að beita sér í borgarastríðinu í Sýrlandi, hvert með sitt markmið sem tengist ekki alltaf því að koma á friði. Það er ærið verkefni fyrir alþjóðasamfélaginu að vinda ofan af svona fjarstýrðum (proxy) átökum, sem voru eitt helsta einkenni kalda stríðsins. Stórveldin börðust ekki sjálf sín á milli, þau létu aðra gera það í einhverjum fjarlægum deildum jarðar.
En það er margt í húfi fyrir Tyrki og Rússa, ekki bara siglingar um Bosporus sem eru lífsnauðsynlegar fyrir Rússa, heldur líka mikil viðskipti milli ríkjanna, gagnkvæmar fjárfestingar, inn- og útflutningur, og ferðamennska. Rússar hafa verið næst stærsti hópurinn sem sækir Tyrkland heim sem ferðamenn á eftir Þjóðverjum, þótt hlutur þeirra hafi aðeins minnkað vegna efnahagskreppunnar í Rússlandi. Rússneskir auðmenn hafa líka fjárfest mikið í ferðamennskunni í Tyrklandi og Rússar hafa verið að reyna að fá Tyrki til að fjárfesta á Krímskaga – sem er ákveðnum vandkvæðum bundið vegna Úkraínudeilunnar.

Málverk sem lýsir einni af ótal orrustum Rússa og Tyrkja. Þetta er úr einu af stríðunum á Balkanskaga.