
Viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta við hryðjuverkunum í París í síðustu viku vekja miklar umræður – og það er ljóst að þau sameina ekki þjóðina, heldur auka fremur á ágreining og deilur.
Tveir sérfræðingar íslenskir í alþjóðamálum hafa tjáð sig um framgöngu Ólafs Ragnars í dag.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skrifar nokkuð langan pistil á Facebook og segir:
Þrennt er einkum athyglisvert við framgöngu forseta Íslands eftir hryðjuverkin í París – og þrjár spurningar vakna í kjölfarið. 1. Forsetinn notar ekki voðaverkin til hugga og stuðla að samstöðu þjóðarinnar heldur hagar orðum sínum á þann hátt að þau sundra og ala á tortryggni í garð múslima. 2. Forsetinn notar tækifærið og kemur einu helsta stefnumáli sínu á framfæri, þ.e. að Ísland taki ekki þátt í samvinnu ríkja Evrópu. 3. Forsetinn notar einkum fjárhagsleg rök fyrir því að við eigum að ganga úr Schengen en ekki öryggissjónarmið. Spurt er: A) Sáuð þið viðbrögð Vigdísar Finnbogadóttur fyrir framan franska sendiráðið í sjónvarpsfréttum RUV daginn eftir voðaverkin? B) Er núverandi forseti að nota tækifærið og kanna stuðning við áframhaldandi setu á Bessastöðum? C) Heldur forseti Íslands að landsmönnum gangi betur að verja sig gegn hryðjuverkum með því að hætta samstarfi við lögregluyfirvöld innan Schengen? – Eitt að lokum – ef ég þekki starfssemi sendiráða ríkja Evrópu og Bandaríkjanna hér á landi rétt þá munu þau flest í þessari viku senda skýrslu um það til sinna ríkisstjórna að forseti Íslands hafi ljáð máls á því að Íslands gengi úr Schengen. Það séu markverðustu tíðindin héðan eftir voðaverkin. – Og svo eru ummæli forsetans enn athyglisverðari ef haft er í huga aukin samvinna Evrópuríkja í kjölfar árásarinnar og ákvörðunar ríkja Evrópusambandsins að virkja samstöðuákvæði Lissabon-sáttmálans um sameiginlegar og gagnkvæmar varnir. – Um það þarf að fjalla í lengra máli ….
En Jón Ormur Halldórsson, sem hefur skrifað bækur og greinar um alþjóðamál, er stuttorðari þegar hann segir:
Ég held að nánast eina samfellan í málflutningi ÓRG í hálfa öld sé gamaldags þjóðremba sem aðstæðna vegna snýr oft að Evrópu.