

Munu loftárásir Frakka á svæði Daesh hafa einhver áhrif? Jú, einhverri eyðileggingu munu þær valda. En hugsanlega eru þær meira til heimabrúks, til að sýna að franska stjórnin geti brugðist hart við. Í desember eru kosningar í Frakklandi, þar er kosið um hverjir stjórna hinum átján héruðum Frakklands.
Í Frakklandi starfar einn stærsti, best skipulagði og fjármagnaði hægriöfgaflokkur Evrópu, Þjóðfylkingin – hún hefur meðal annars fengið fjármagn frá Rússlandi. Leiðtogi hans er Marine Le Pen, hún býður sig fram í héraðinu Nord-Pas-de-Calais-Picardie og margt bendir til þess að hún geti sigrað.
Kosningarnar geta líka talist eins konar forspil fyrir forsetakosningar sem verða 2017, en þar verður Marine Le Pen nær örugglega í framboði. Í skoðanakönnunum hefur Le Pen notið mikils fylgis, þegar spurt er um fyrri umferð forsetakosninganna virðist hún geta sigrað Hollande forseta, en ef væri kosið milli þeirra tveggja í síðari umferð myndi Hollande líklega sigra. Atburðir eins og hryðjuverkaárásirnar um helgina geta þó breytt því.
Oft hefur verið efast um leiðtogahæfileika Hollandes. Hann hefur þótt veiklaður og tvílráður og fáir forsetar Frakklands hafa fengið aðra eins útreið í fjölmiðlum og hann fékk á fyrstu misserum valdatíðar sinnar. Skoðanakannanir sýndu að Frakkar bera afar lítið traust til Hollandes, en það snarjókst þó eftir árásirnar á skopblaðið Charlie Hebdo í janúar. Síðan hefur það dalað aftur.
Það ríður semsagt á fyrir Hollande að sýnast staðfastur og styrkur. Frakkland er náttúrlega gamalt herveldi og í ræðu sinni eftir árásirnar talaði Hollande um „stríð“. Menn eru meira að segja farnir að tala um þriðju heimsstyrjöldina af furðulegri léttúð – eins og þeir séu nánast að kalla hana yfir sig. En þetta er hættuleg braut, árásum Daesh og hryðjuverkaaflanna er einmitt beint gegn hinu plúralíska og opna vestræna samfélagi – árásirnar á föstudagskvöldið voru gegn stöðum þar sem ungt og frjálslynt fólk kemur saman. Það er markmið Daesh að ala á sundrungu og upplausn, og kalla fram viðbrögð sem reka fleyg milli ólíkra þjóðfélagshópa, reka múslima lengra út á jaðarinn og fá vestræn ríki til að „kasta grímunni“ eins og það er stundum kallað.
Kosningasigur Þjóðfylkingarinnar og Le Pen yrði í rauninni sigur fyrir Daesh líka.
