

Það er alveg þarflaust að metast um virði mannslífa vegna hryðjuverkaárásanna á París. Það sem skiptir máli er ekki að mannslíf hafi meira virði í Frakklandi en annars staðar. En við upplifum hlutina auðvitað sterkar vegna þess að París er nálægt okkur, við höfum mörg komið þangað, þangað er flogið á hverjum einasta degi frá Íslandi.
París er táknmynd frelsis. Borg frönsku byltingarinnar. Mannréttindayfirlýsingarinnar. Borg lista og menningar, hugmynda og andlegs frjálsræðis. Borg þangað sem flóttamenn undan kúgun hafa leitað í mörg hundruð ár og fengið skjól.
París er fjölmenningarborg. Þar lifir fólk af ýmsu þjóðerni, kynþáttum og trúarbrögðum saman – og hefur mestanpart tekist að gera það í sátt og samlyndi. Það er afar mikilvægt að þessi sambúð geti haldið áfram. Eitt markmið hryðjuverkamannanna er að spilla henni.
Það er viðkvæmt stjórnmálaástand í Evrópu. Öfgar ala af sér öfgar. Íslamski fasisminn á sér samhverfu í hægriöfgahreyfingum í Evrópu. Í sjálfu sér er ekki svo mikil hætta á að hryðjverkamenn geti valdið miklu mannfalli í Evrópu. En þeir geta gert gríðarlegan usla, magnað upp ótta, óöryggi og hatur. Það eru í raun viðbrögðin við árásunum sem eru hættulegri en þær sjálfar. Gætum við upplifað þann dag að hægriöfgamenn komist til valda í Frakklandi í líki Front National?
Og þess vegna er samstaðan með París svo mikilvæg. Það er samstaða með gildunum sem eru í húfi – því sem er súmmað upp í einkunnarorðum franska lýðveldisins, frelsi, jafnrétti, bræðralag.
